Ársskýrsla 2020-2024

Formáli

Haustið 2020 komu 10 stofnanir saman og sendu umsókn í Innviðasjóð um að fá Miðstöð stafrænna hugvísinda og lista (MSHL) á Vegvísi um rannsóknainnviði. Í dag eru aðildarstofnanir 15.

Umsóknin var samþykkt og síðan hefur MSHL fengið rúmlega 230 milljónir í styrki úr Innviðasjóði til ýmissa verkefna.

MSHL er dreifður innviður fyrir rannsóknir í hugvísindum og listum sem nýta stafræn gögn og stafrænar rannsóknaraðferðir. Miðstöðin er samstarf 15 stofnana um uppbyggingu stafrænna gagnagrunna, þróun stafrænna aðferða til rannsókna, miðlun upplýsinga um tæknilausnir sem eru í boði og þjálfun í stafrænum aðferðum. Innviðurinn samanstendur af kjarna sem er rekinn við Hugvísindasvið Háskóla Íslands, í samstarfi við Upplýsingatæknisvið HÍ og IREI, og tengdum innviðum eða innviðaverkefnum hjá aðildarstofnunum MSHL.

Mynd 1: MSHL í landslagi hug- og félagsvísinda í Evrópu (ESFRI Landscape Analysis 2024).

Stjórnsýsla

MSHL er samstarf 15 stofnana um sameiginleg verkefni. Hver aðildarstofnun ber ábyrgð á sínum verkefnum og leggur fram vinnu sérfræðinga og aðstöðu í verkefnin.

  • Starfsreglur MSHL voru samþykktar í september 2021 og stjórn skipuð.
  • MSHL er rekin við Hugvísindasvið Háskóla Íslands, sem ber ábyrgð á rekstri miðstöðvarinnar.
  • Verkefnastjóri MSHL var ráðinn við HÍ í júní 2022, en fór til annarra starfa í apríl 2024.
  • Starf verkefnisstjóra var auglýst til umsóknar haustið 2024 með frest til 2. desember. Starfið er fjármagnað sameiginlega af öllum 15 aðildarstofnunum og styrkjum úr Samstarfi háskóla (háskóla-, vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu) og úr Aldarafmælissjóði Háskóla Íslands. Elena Callegari og Katrín Lísa van der Linde Mikaelsdóttir voru ráðnar við miðstöðina og hefja störf 1. janúar 2025.
  • Verkefni MSHL eru unnin af og í eigu þeirra stofnana þar sem þau eiga best heima. Sérstakur samstarfssamningur er gerður um hvert verkefni í upphafi vinnunnar.
  • Lykilatriði í allri starfseminni er opinn aðgangur að gögnum og tækjum og áhersla á notkun til rannsókna.

Stjórn MSHL frá upphafi

  • Eiríkur Smári Sigurðarson, Háskóli íslands – formaður (áður Guðmundur Hálfdanarson og Ólöf Garðarsdóttir)
  • Guðrún Nordal, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum
  • Hannes Högni Vilhjálmsson, Háskólinn í Reykjavík
  • Hrönn Konráðsdóttir, Þjóðminjasafn Íslands (áður Ágústa Kristófersdóttir)
  • Helga Lára Þorsteinsdóttir, Ríkisútvarpið
  • Ingibjörg Jóhannsdóttir, Listasafn Íslands (áður Harpa Þórsdóttir)
  • Sigurður Trausti Traustason, Listasafn Reykjavíkur
  • Unnar Ingvarsson, Þjóðskjalsafn Íslands
  • Þorbjörg Daphne Hall, Listaháskóli Íslands (áður Hulda Stefánsdóttir)
  • Örn Hrafnkelsson, Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn

Nýir aðilar í stjórn með fjölgun aðildarstofnana:

  • Ágústa Kristófersdóttir, Rekstrarfélag Sarps (áður Sveinbjörg Sveinsdóttir)
  • Guðbrandur Benediktsson, Borgarsögusafn Reykjavíkur
  • Margrét Valmundsdóttir, Minjastofnun Íslands
  • Sveinbjörg Sveinsdóttir, Landskerfi bókasafna
  • Þóra Sigríður Ingólfsdóttir, Kvikmyndasafn Íslands

Helstu vörður í starfi MSHL

  • Nóvember 2020: Umsókn um aðild að Vegvísi um rannsóknainnviði samþykkt.
  • Apríl 2021: Fyrsta umsókn í Innviðasjóð, tvö verkefni samþykkt.
  • September 2021: Stjórn skipuð og reglur MSHL samþykktar.
  • Nóvember 2021: Önnur umsókn í Innviðasjóð, fjögur verkefni samþykkt.
  • Júní 2022: Verkefnisstjóri ráðinn.
  • Júní 2022: Aðild að DARIAH ERIC.
  • Nóvember 2022: Þriðja umsókn í Innviðasjóð, þrjú verkefni samþykkt.
  • Nóvember 2023: Fjórða umsókn í Innviðasjóð, þrjú verkefni samþykkt.
  • Apríl 2024: Verkefnisstjóri lætur af störfum.
  • Maí 2024: Alþjóðleg ráðstefna DHNB haldin í Reykjavík.
  • Ágúst 2024: Eigendafundur MSHL.
  • Október 2024: Umsókn um framhald á Vegvísi.
  • Nóvember 2024: Fyrsti ársfundur MSHL.
  • Desember 2024: Tveir verkefnastjórar ráðnir við MSHL.

Verkefni MSHL 2020-2024

Starfsemi MSHL hefur að miklu leyti hverfst um sameiginleg verkefni styrkt af Innviðasjóði. Alls hafa fengist styrkir til 10 verkefna. Styrkirnir eru til kaupa á tækjum og þróun eða kaup á hugbúnaðarlausnum til að gera hliðræn gögn stafræn, þróun nýrra stafrænna gagnagrunna og uppfærslu gagnagrunna. MSHL hefur unnið samkvæmt langtímaáætlun um að byrja á breiddinni – þ.e. huga að uppfærslum og lagfæringum á stórum gagnagrunnum og viðbætur við þá – en beinir í auknum mæli sjónum að sérhæfðum rannsóknagagnagrunnum.

Fjármögnun og staða Innviðasjóðsverkefna í desember 2024
Yfirlit yfir verkefni styrkt af Innviðasjóði

Samhliða Innviðasjóðsverkefnum hefur MSHL lagt rækt við fleiri verkefni.

Innlend verkefni og styrkir:

  • Samstarf háskólanna (2023): Styrkur til þróunar vefgáttar, kennslu- og þjálfunarefnis og til kynningarmála (25,6 milljónir).
  • Aldarafmælissjóður HÍ (2023): Kortlagning gagnagrunna í HÍ (1,5 milljónir).
  • Tækjakaupasjóður HÍ (2024): Kaup á búnaði til verkefna sem notast við 3D og sýndarveruleika (0,7 milljónir).
  • Nýsköpunarsjóður námsmanna (2023 og 2024): Nokkur verkefni tengd MSHL.
  • Samstarf háskólanna (2023): Samstarf Listasafns Íslands, Listaháskóla Íslands og Háskóla Íslands um þróun doktorsnáms í listum og listfræði með rafræna safneign listasafnsins sem viðfangsefni (37 milljónir).
  • Samstarf háskólanna (2024): Styrkur til að vinna að lausn mála sem snerta persónuvernd og höfundarétt; stöðlun lýsigagna og aðild að DARIAH-ERIC (26 milljónir).
  • Aldarafmælissjóður HÍ (2024): Styrkur vegna ráðgjafar við að gera vef MSHL aðgengilegan öllum (1 milljón).

 

Alþjóðleg verkefni og alþjóðlegt samstarf sem MSHL er aðili að:

  • DARIAH-ERIC: MSHL er meðlimur að DARIAH og vinnur að því að Ísland gerist fullgildur meðlimur.
  • DACCHE: Verkefni styrkt af INTERREG NPA um lýðvirkjun, menningarminjar og loftlagsbreytingar 2023.
    • MSHL hætti í verkefninu vorið 2024, ásamt tveimur öðrum þátttakendum, vegna samstarfsörðugleika við verkefnisstjóra.
  • DHNB (Digital Humanities in the Nordic and Baltic Countries): MSHL hélt árlega ráðstefnu í maí 2024. Stjórnarformaður MSHL er varaformaður stjórnar DHNB.
  • ANTIDOTE: Nýtt verkefni styrkt af Erasmus+ (KA2) 2024 um þjálfun og kennslu í stafrænum útgáfum. MSHL leiðir verkefnið.
  • ARTISTIC INTELLIGENCE: COST net um rafrænar listir, skráningu og birtingu listrannsókna.

Formaður stjórnar MSHL meðlimur vinnuhóps ESFRI um hug- og félagsvísindi frá september 2024 fyrir hönd háskóla-, vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins.

Atburðir á vegum MSHL


Frá 2020 hefur miðstöðin staðið fyrir fjölda atburða.

Stærsti atburðurinn sem MSHL hefur staðið fyrir er ráðstefna samtakanna Digital Humanities in the Baltic and Nordic Countries sem haldin var í Reykjavík í maí 2024. Mjög góð íslenska þátttaka var á ráðstefnunni:

  • 41 þátttakandi skráður (af 175 í heildina)
  • 14 fyrirlestrar
  • 1 vinnustofa skipulögð
  • 7 veggspjöld
  • 1 hátíðarfyrirlestur

Rannsóknarverkefni

MSHL hefur tekið þátt í mörgum styrkumsóknum frá 2020, ýmist sem beinn þátttakandi í verkefnum eða sem hluti af rannsóknainnviðum og -þjónustu sem er í boði.

Bein þátttaka í umsóknum og verkefnum:

  • DACCHE (INTERREG-NPA)
    • Verkefnið byrjaði 2023, en MSHL hætti í verkefninu eftir ár ásamt tveimur öðrum aðilum vegna samstarfsvandræða.
  • ANTIDOTE (Erasmus+ KA2)
    • Verkefnið hófst í september 2024 og varir í 4 ár. MSHL leiðir samstarfið, ásamt miðaldafræði við Háskóla Íslands.
  • HumInfra (Horizon RIA)
    • Umsókn send í innviðaáætlun Horizon Europe. Verkefnið var ekki styrkt.
  • Nýsköpunarsjóður námsmanna
    • Miðlun og kennsla með sögulegu mann- og bæjatali. Þrír nemendur styrktir 2023 til að prófa ólíka þætti SMB.
    • 3D líkön af eyðibýlum í Skagafirði. Einn nemandi styrktur 2024 til að vinna verkefni sem tengir saman SMB, 3D skannaða staði og 360 gráðu myndir.

 

Óbein þátttaka í umsóknum og verkefnum:

Þegar mikilvægur hluti verkefna í hugvísindum og listum snýst um stafræn gögn – söfnun þeirra, rannsóknir á þeim eða miðlun – er MSHL oft meðal innviða sem nefndir eru í umsóknum. Þetta á m.a. við um ERC styrki og umsóknir.

  • EILisCh (ERC verkefni styrkt 2023).
  • Þrjár umsóknir um ERC styrki sendar inn haustið 2024.
  • Fjöldi umsókna í Rannsóknasjóð og aðra innlenda sjóði.

 

Innviðir sem MSHL hefur fengið styrki til að kaupa eða byggja upp eru allir nýlega teknir í notkun og er ekki nema rúmlega árs reynsla komin á nýtingu þeirra. Undantekning eru 3D skannar, sem voru keyptir árið 2021 en komu ekki til landsins fyrr en snemma árs 2022. Dæmi um notkun innviða í ólíkum tilgangi eru:

  • Archive Arnamagnæana, sem leitt er af Þórunni Sigurðardóttur hjá Árnastofnun. Verkefnið fékk 200 milljóna styrk frá A.P. Møller og Hustru Chastine McKinney Møllers Fond til almene Formaal árið 2023. Notar Sögulegt mann- og bæjatal og Transkribus.
  • Mælingar og greining á raka- og hitaástandi ásamt vöktun burðarvirkis torfbæja: Varðveisla til framtíðar, leitt af Dórótea Höeg Sigurðardóttur, Birni Marteinssyni og Kristjáni Mímissyni við Háskóla Íslands og var styrkt af Rannsóknasjóði 2024. Notar 3D skanna.
  • Island of the Winds, tölvuleikur frá Parity Games, birtur í lok árs 2024. Notar 3D útgáfur af munum úr Þjóðminjasafni; myndaðir með skönnum MSHL.

Samantekt á markmiðum og verkefnum MSHL

MSHL er vettvangur fyrir samstarf og samráð um uppbyggingu stafrænna innviða fyrir íslenska menningu og listir og fyrir þróun aðferða til að stunda rannsóknir á þessum gögnum.

  • Samstarfið innan MSHL hefur mest snúist um verkefni styrkt af Innviðasjóði frá 2021 til 2024, en fundir stjórnar MSHL hafa í auknum mæli farið í umræður um önnur sameiginleg hagsmunamál. Þetta á t.d. við um gæði gagna, höfundarétt og persónuvernd, opinn aðgang að gögnum, atriðaorð og notkun gervigreindar.
  • Hjá aðildarstofnunum MSHL er gríðarleg þekking og reynsla á öllu sem tengist stafrænum aðgangi að menningu og listum og stafrænum aðferðum til að vinna með þessi gögn. Með því að sameina kraftana og deila þekkingu og reynslu standa aðildarstofnanirnar sterkari.
  • MSHL hefur meira bolmagn en einstaka stofnanir til að vinna sameiginlegum hagsmunamálum aðildarstofnana brautargengi.

MSHL veitir aðgang að styrkjum Innviðasjóðs og fleiri styrktaraðila á Íslandi og alþjóðlega.

  • Aðild að Vegvísi um rannsóknarinnviði veitir forgang að styrkjum Innviðasjóðs. Utan Vegvísis er MSHL líka mikilvægur aðili til að afla styrkja til sameiginlegra verkefna eða verkefna sem einstaða stofnanir standa að.
  • Þátttaka MSHL í styrkumsóknum virðist vera styrkur og í alþjóðlegu samhengi er leitað til miðstöðvarinnar um samstarf í styrkumsóknum fyrir verkefni sem beita aðferðum stafrænna hugvísinda.

MSHL vinnur að þróun vefgáttar með aðgangi að stafrænum gögnum um íslenska menningu og listir sem mun gera safneign aðildarstofnana sýnilegri og aðgengilegri en í dag.

  • Markmiðið er að opna vefgátt þar sem hægt verður að leita samtímis í fjölda gagnagrunna sem hýstir eru hjá mörgum ólíkum stofnunum. Með þessu móti verða möguleikar til rannsókna, kennslu og miðlunar mun betri en í dag og gögn stofnananna (eða safneignin) verður sýnilegri.
  • Fyrirmyndir eru sóttar til sambærilegra aðila erlendis, t.d. til HUMINFRA í Svíþjóð (huminfra.se) og ROSSIO í Portúgal (rossio.pt) sem eru miðstöðvar fyrir stafræn hugvísindi sem þjónusta allt landið og veita aðgang að gögnum og öðrum gæðum í gegnum miðlæga vefgátt.

MSHL er er að byggja upp sérfræðiþekkingu á meðhöndlun rafrænna gagna fyrir hugvísindi og listir.

  • MSHL er í samstarfi við Íslenska rafræna innviði (IREI) um hýsingu og faglega umsýslu gagna sem tengjast miðstöðinni. Markmiðið er að hjá MSHL verði sérfræðiþekking um meðhöndlun rannsóknagagna sem IREI getur ekki boðið upp á fyrir hugvísindi og listir.

MSHL getur sinnt gagnaþjónustu fyrir aðildarstofnanir miðstöðvarinnar, bæði í tengslum við IREI og aðra hýsingaraðila, með því að byggja upp þekkingu á stafrænum gögnum fyrir hugvísindi og listir.