Þrívíddarskannar

MSHL á þrjá þrívíddarskanna

  • Artec Ray
  • Artec Eva
  • Artec Space spider

Skannarnir gefa möguleika á því að skanna inn allar stærðir, allt frá stórum húsum til minnstu nagla, og hægt er að nota þá saman til þess að ná smáatriðum inni í herbergjum og húsum. Tækin og hugbúnaðurinn sem þeim fylgir eru einföld í meðförum og hægt að fara með þau auðveldlega á milli staða.

Skannarnir eru varðveitt hjá Þjóðminjasafnin Íslands og er hægt að sækja um að fá aðgang að þeim.

Forverðir geta nýtt þrívíddarskanna í upphafi forvörslu til að skrásetja útlit grips og jafnvel prentað út þrívíddarlíkan af munum. Skannarnir nýtast á vettvangi rannsókna á fornleifum, listaverkum, þjóðháttum, safnafræði, sagnfræði og undirgreinum hennar auk þess sem þeir eru vinnutæki við forvörslu safnmuna og rannsóknir þeim tengdum.

Einnig eru möguleikar á því að tengja þrívíddargögn úr fornleifauppgröftum við það mengi af gripum og sýnum sem upp koma og eru skilaskyld til Þjóðminjasafns Íslands. Í því felast áður óþekktir möguleikar til miðlunar rannsóknarniðurstaðna og auðveldar samanburð milli staða og tíma.

Þrívíddarskönnun býður upp á byltingarkennda möguleika hvað varðar skrásetningu rýmisinnsetninga og listaverka sem endursköpuð eru samkvæmt leiðbeiningum hverju sinni. Þær upplýsingar sem slík skönnun getur miðlað til þeirra sem ekki hafa tök á að skoða verk á staðnum eru í eðli sínu ólíkar þeim upplýsingum sem hægt er að miðla með teikningum, ljósmyndum, myndböndum og texta. Þrívíðir eiginleikar myndlistarverka komast til skila og bjóða upp á nýja nálgun við rannsóknir á þessu sviði, bæta varðveislu upplýsinga og möguleika til rannsókna sem og auðvelda enduruppsetningu verka í framtíðinni.