Starfsreglur fyrir Miðstöð stafrænna hugvísinda og lista
1. gr. Almennt
Miðstöð stafrænna hugvísinda og lista (skammstafað: MSHL) er vettvangur fyrir uppbyggingu, vistun, samráð um þróun og aðgengi að stafrænum gagnabönkum í hugvísindum og listum og fyrir rannsóknir sem byggja á þessum gagnabönkum.
Miðstöðin er ein af stofnunum Hugvísindastofnunar Háskóla Íslands, sbr. reglur nr. 1022/2009, en heyrir stjórnskipulega beint undir stjórn Hugvísindasviðs vegna sérstöðu um fyrirkomulag skipunar stjórnar og starfrækslu eftir því sem nánar greinir í þessum starfsreglum sem stjórn Hugvísindastofnunar staðfestir.
2. gr. Markmið og hlutverk
Markmið MSHL er að styðja uppbyggingu á og aðgengi að rannsóknainnviðum á sviði stafrænna hugvísinda og tengja íslenskar rannsóknir við alþjóðlega þróun á þessu sviði.
Miðstöð stafrænna hugvísinda og lista er ætlað að:
- Efla samstarf stofnana sem hýsa íslenska gagnabanka á sviði hugvísinda og lista og stunda rannsóknir út frá þeim.
- Stuðla að uppbyggingu gagnabanka og uppfærslu á gagnabönkum sem þegar eru til og tryggja að gagnabankar uppfylli alþjóðlega staðla um lýsigögn.
- Leiða þróun tæknilausna fyrir gagnabanka og innkaup á tilbúnum lausnum, allt eftir því hvað á best við hverju sinni.
- Veita rannsakendum aðgang að gögnum og gagnabönkum sem henta þeirra rannsóknum.
- Veita rannsakendum aðgang að sérhæfðum tækjum og tæknilausnum til að sinna rannsóknum sem nýta sér stafræna gagnabanka.
- Aðstoða við miðlun efnis sem hentar þörfum mismunandi markhópa.
- Standa fyrir menntun og þjálfun í rannsóknatækni og aðferðum stafrænna hugvísinda.
3. gr. Aðild
Stofnaðilar MSHL eru Háskóli Íslands – Hugvísindasvið, Háskólinn í Reykjavík, Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn, Listaháskóli Íslands, Listasafn Íslands, Listasafn Reykjavíkur, Ríkisútvarpið, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Þjóðminjasafn Íslands og Þjóðskjalasafn Íslands.
Stjórn MSHL getur veitt nýjum stofnunum aðild að miðstöðinni á löglegum fundi stjórnar.
4. gr. Stjórn og stjórnarfundir
Forseti Hugvísindasviðs skipar stjórn MSHL til þriggja ára í senn. Þær stofnanir sem eiga aðild að MSHL, bæði stofnaðilar og aðrir sem koma síðar inn, eiga hver um sig einn fulltrúa í stjórninni. Fulltrúi Háskóla Íslands – Hugvísindasviðs er formaður stjórnar. Í stjórn skulu sitja bæði karlar og konur og skal þess gætt að hlutfall kynjanna sé ekki minna en 40%, sbr. 15. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Stjórnin skiptir að öðru leyti með sér verkum.
Hlutverk stjórnar er að taka stefnumótandi ákvarðanir um stofnunina og sjá til þess að markmiðum hennar sé framfylgt.
Formaður stjórnar boðar stjórnarfund með tölvupósti með minnst þriggja daga fyrirvara. Fundarboð skal greina dagskrá fundar. Skylt er að halda stjórnarfund óski tveir eða fleiri aðilar þess. Fundur telst löglegur sé meirihluti stjórnar mættur.
Halda skal gerðarbók stjórnar og skal færa samþykktar fundargerðir í hana.
Komi til atkvæðagreiðslu ræður meirihluti greiddra atkvæða. Falli atkvæði jafnt er atkvæði formanns oddaatkvæði.
Ef ráðinn er forstöðukona/forstöðumaður, sbr. 6. gr., situr hún/hann stjórnarfundi með málfrelsi og tillögurétt, en án atkvæðisréttar.
5. gr. Framkvæmdaráð
Stjórn er heimilt að skipa framkvæmdaráð til að sinna stjórnun MSHL milli funda stjórnar. Ef framkvæmdaráð er skipað samþykkir stjórn jafnframt fyrirmæli um ábyrgð og hlutverk framkvæmdaráðs.
6. gr. Forstöðukona/forstöðumaður
Forseti Hugvísindasviðs getur, að tillögu stjórnar, ráðið MSHL forstöðukonu eða forstöðumann til að sinna daglegum rekstri MSHL og setur henni/honum erindisbréf. Ráðningarsambandið verður við Háskóla Íslands – Hugvísindasvið og fer um ráðningu að öðru leyti eftir ákvæðum reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009.
Forstöðukona/forstöðumaður er í starfi sínu ábyrg(-ur) gagnvart stjórn.
7. gr. Aðstaða og fjármál
MSHL er rekin við Háskóla Íslands – Hugvísindasvið, sem veitir MSHL aðstöðu eftir því sem kostur er. Fjármál MSHL eru á ábyrgð sviðsforseta Hugvísindasviðs og annast stjórnsýsla Hugvísindasviðs MSHL umsýslu fjármuna, skrifstofu- og stoðþjónustu.
Tekjur MSHL eru í formi:
- Styrkja til skilgreindra verkefna.
- Beinna framlaga aðildastofnana, eins og þær kjósa hverju sinni.
Reikningshald stofnunarinnar er hluti af reikningshaldi Háskóla Íslands.
8. gr. Gildistaka
Starfsreglur þessar eru settar á grundvelli reglna um Hugvísindastofnun Háskóla Íslands nr. 1022/2009, sem stjórn Hugvísindastofnunar hefur staðfest að fengnu samþykki stjórnar Hugvísindasviðs og allir stofnaðilar MSHL hafa samþykkt. Starfsreglurnar taka gildi 23.09.2021 og skulu birtar á heimasíðu Hugvísindasviðs Háskóla Íslands