Um MSHL

Miðstöð stafrænna hugvísinda og lista (MSHL) er vettvangur fyrir uppbyggingu, vistun, samráð um þróun og aðgengi að stafrænum gagnabönkum í hugvísindum og listum, og fyrir rannsóknir sem byggja á þessum gagnabönkum.

Gagnabankarnir ná bæði yfir málleg gögn, þ.e. texta og tungumál, og gögn í öðru formi, eins og myndir, myndbönd, þrívíddarmódel, hljóð og myndlist á stafrænu formi. MSHL mun halda utan um þátttöku í alþjóðlegu samstarfi á sviði stafrænna rannsóknarinnviða í hugvísindum og listum og hafa opið aðgengi að gögnum að leiðarljósi.

MSHL er samstarf 13 stofnana um innviðakjarna í hugvísindum og listum. Stafræn hugvísindi (e. digital humanities) er ört vaxandi rannsóknasvið á mörkum hugvísinda og upplýsingatækni. Í stafrænum hugvísindum er aðferðum upplýsingatækni beitt á viðfangsefni hugvísinda og lista, sem opnar fyrir nýjar þverfaglegar rannsóknir og viðfangsefni og fyrir ný tækifæri fyrir miðlun rannsókna og niðurstaðna þeirra.

Markmið

Markmið MSHL er að styðja uppbyggingu á og aðgengi að rannsóknainnviðum á sviði stafrænna hugvísinda og tengja íslenskar rannsóknir við alþjóðlega þróun á þessu sviði.

MSHL verður innviðakjarni, rekinn í samstarfi helstu háskóla og stofnana sem fást við hugvísindi og listir og gögn sem tengjast sögu, menningu og tungumálum á Íslandi.

Viðfangsefni

 • Efla samstarf stofnana sem hýsa íslenska gagnabanka á sviði hugvísinda og lista og stunda rannsóknir út frá þeim.
 • Stuðla að uppbyggingu gagnabanka og uppfærslu á gagnabönkum sem þegar eru til og tryggja að gagnabankar uppfylli alþjóðlega staðla um lýsigögn.
 • Leiða þróun tæknilausna fyrir gagnabanka og innkaup á tilbúnum lausnum, allt eftir hvað á best við hverju sinni.
 • Veita rannsakendum aðgang að gögnum og gagnabönkum sem henta þeirra rannsóknum.
 • Veita rannsakendum aðgang að sérhæfðum tækjum og tæknilausnum til að sinna rannsóknum sem nýta sér stafræna gagnabanka.
 • Aðstoða við miðlun efnis sem hentar þörfum mismunandi markhópa.
 • Standa fyrir menntun og þjálfun í rannsóknatækni og aðferðum stafrænna hugvísinda.

Áhrif

MSHL mun styðja við og efla rannsóknir sem tengjast stórum samfélagslegum áskorunum. Hún gefur ný tækifæri til rannsókna sem tengjast lífi og störfum í heimi breytinga þar sem gagnabankarnir innihalda fjölbreyttar upplýsingar um:

 • lýðfræðilegar breytingar
 • jafnrétti
 • fjölbreytni
 • menningu
 • hugarfar og breytingar á hugarfari yfir lengri tíma.

Innviðauppbyggingin mun líka efla rannsóknir sem tengjast heilsu og velferð, þar sem bankarnir innihalda verðmætar upplýsingar um líðan, velferð og einkalíf.

Eins mun innviðauppbyggingin efla rannsóknir sem tengjast umhverfismálum og sjálfbærni, þar sem góðar upplýsingar um áhrif umhverfisbreytinga á fólk og samfélög skipta verulegu máli.

Lögð verður áhersla á að opna almenningi aðgang að niðurstöðum rannsókna og gögnum sem rannsóknir byggjast á.

Einnig verðu lögð áhersla á að virkja almenning til þátttöku (e. citizen science), meðal annars með því að taka þátt í söfnun og vöktun upplýsinga í gegnum ákveðin verkefni (e. crowd sourcing). Þetta skiptir m.a. máli fyrir Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um menntun fyrir alla, nýsköpun og sjálfbærni.

Notendur

MSHL mun þjóna öllum rannsakendum í hugvísindum og listum á Íslandi, sem og öllum öðrum sem hafa áhuga á að vinna með íslensk gögn.

Opið aðgengi að hágæða gögnum er ein af meginstoðum miðstöðvarinnar. MSHL mun nýtast öðrum sem hafa áhuga á og hag af að vinna með gögn innan hugvísinda og lista. Þetta á við um mörg svið félags- og menntavísinda sem og önnur fræðasvið sem vinna með sögu- og menningarleg gögn í sínum rannsóknum.

MSHL veitir menntastofnunum á öllum stigum bættan aðgang að gögnum og tækjum til að vinna með menningar- og sögulegar upplýsingar.

MSHL mun tengjast sambærilegum stofnunum erlendis, bæði á Norðurlöndum og í öðrum nágrannalöndum, og taka þátt í þróun nýrra lausna á sviðinu.