Categories
viðburðir

Manntalsgögn, tengdir gagnabankar og sögulegar rannsóknir

Tími: fimmtudaginn 29. febrúr 2024 kl. 14-15:45.

Hvar: Edda, hús íslenskunnar.

Auglýsing fyrir viðburðinn Manntalsgögn, tengdir gagnabanjar og sögulegar rannsóknir

Sögulegt manna- og bæjatal (SMB), sem tengir manna- og staðanöfn í manntölum frá 1703 til 1920, hefur verið í þróun á vegum Miðstöðvar stafrænna hugvísinda og lista frá 2021. Í tilefni af því að SMB er að verða tilbúið til notkunar fyrir rannsakendur og almenning efnum við til málþings um rannsóknir sem byggjast á manntalsgögnum og öðrum sambærilegum gögnum og hvaða þýðingu SMB getur haft fyrir rannsóknir á íslenskri sögu og menningu.

Dagskrá:

14.00-14.10 Eiríkur Smári Sigurðarson: Setning
14.10-14.25 Ólöf Garðarsdóttir: Langsnið eða þversnið? Að endurskapa lífshlaup með manntölum
14.25-14.40 Óskar Guðlaugsson: Árið 1703
14.40-15.10 Pétur Húni Björnsson: Sögulegt manna- og bæjatal – kynning
15.10-15.25 Kristinn R. Þórisson: Vitvélapönk með manntöl
15.25-15.40 Elisabeth Engberg: Sharing data with the public: experiences from Sweden

Nánari lýsing:

Markmið SMB er að til verði miðlægur þekkingarbrunnur með tímasettum upplýsingum um bæja- og staðanöfn annars vegar og mannanöfn hins vegar svo langt sem heimildir ná. Þekkingarbrunnurinn nýtist fyrir rannsóknir sem tengjast íslenskri sögu og menningu með því að tengja saman og uppfæra marga ólíka gagnagrunna sem ýmsar stofnanir reka í dag þannig að úr verður nýr samræmdur rannsóknainnviður opinn bæði rannsakendum og almenningi. Þeir grunnar sem þekkingarbrunnurinn byggir á eru ólíkir að uppbyggingu, framsetning gagna er mismunandi og ólíkir staðlar notaðir við skráningu sem gerir mjög erfitt og tímafrekt að vinna rannsóknir þvert á þá. Með nýjum miðlægum þekkingargrunni verður mögulegt í einstökum gagnasöfnum að vísa í samræmd auðkenni bæja- og staðanafna og einstaklinga sem gerir samkeyrslu gagna í rannsóknartilgangi mögulega og rannsóknir sem byggjast á þessum gögnum auðveldari.